Haraldur Óli Valdimarsson látinn
Óli, eins og Haraldur Óli var alltaf kallaður, var á sjó sem ungur maður en kom í land 1957 og fór þá að vinna í Pylsugerð KEA í Kaupfélagsgilinu þar sem faðir hans, Valdimar Haraldsson, var deildarstjóri. Óli vann hjá KEA alla tíð eftir það og var mikill Kaupfélagsmaður.
Óli lauk sveinsprófi í kjötiðn 8. maí 1965 og fékk meistararéttindi 28. ágúst 1968. Hann varð verksmiðjustjóri Kjötiðnaðarstöðvar KEA, forvera Norðlenska, eftir að fyrirtækið fluttist í nýtt og glæsilegt húsnæði á Oddeyri þar sem Norðlenska er nú til húsa. Síðar tók Óli einnig við stjórn sláturhúss KEA og stjórnaði báðum fyrirtækjum um árabil þar til hann lét af störfum 67 ára að aldri.
Árið 2002 var Óli gerður að heiðursfélaga í Meistarafélagi kjötiðnaðarmanna og var sá fyrsti sem þann sæmdartitil hlaut. Hann var virkur í Frímúrarareglunni frá 1968 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrri félagsskapinn.
Óli kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni Ólínu Lilju Sigurjónsdóttur árið 1954. Þau gengu í hjónaband 1. desember 1957. Óli og Ólína eignuðust þrjár dætur; Ragnheiður er gift Hauki Jóhannssyni og eiga þau þrjú börn; Þórunn Anna er gift Erni Jóhannssyni og eiga þau þrjú börn; Erla Margrét er gift Gunnlaugi Þráinssyni og eiga þau tvö börn.
Haraldur Óli hélt alla tíð góðu sambandi við sinn gamla vinnustað. Hann kom reglulega í heimsókn og sýndi starfseminni mikinn áhuga. Að leiðarlokum eru honum færðar þakkir fyrir hlýhug og vináttu í garð fyrirtækisins og starfsmanna þess. Norðlenska sendir aðstandendum Óla innilegustu samúðarkveðjur.
Útför Haraldar Óla verður frá Akureyrarkirkju fimmtudaginn 17. desember og hefst kl. 13.30.





