Stórkostlegt að skoða sig um á Íslandi
Emilia Mudz kom frá Póllandi til að vinna hjá Norðlenska í sumar, eins og á síðasta ári. Því réði þó engin tilviljun heldur eru foreldrar hennar, Wojciech og Alicja, báðir búsettir á Akureyri og vinna hjá fyrirtækinu.
„Pabbi hefur verið hér á Akureyri í 19 ár og mamma í fjögur eða fimm," segir Emilia, sem er alveg að verða 19 ára. Henni líkar vel á Akureyri. „Fyrir utan veðrið reyndar því mér finnst kalt!" segir hún og hlær. Veit að heimamönnum þykir sumarið yndislegt og það sé eitt hið besta frá upphafi á þessum slóðum. „Í Póllandi er alltaf vel yfir 20 stiga hiti á sumrin," útskýrir hún, en Emilia býr í litlum bæ rétt fyrir utan höfuðborgina Varsjá.
Aðalástæðan fyrir því að Emilia kom var skiljanlega sú að hitta foreldra sína, „en ég vildi líka skoða meira af landinu. Mér finnst æðislegt að sjá hverina og svo margt annað. Þetta er í fjórða skipti sem ég kem til Íslands því ég kom líka þegar ég var barn, og hef skoðað mig mikið um. Ég tók bílpróf í Póllandi og get því keyrt út um allt. Þegar ég er ekki of þreytt eftir vinnnuna geri ég mjög mikið af því að fara í skoðunarferðir. Ég get farið á suma staði aftur og aftur því mér finnst þeir alltaf jafn stórkostlegir."
Emilia lauk framhaldsskóla í heimalandinu í vor og hyggur á frekara nám í haust, líklega í upplýsingatækni. Hún segist hlakka mjög til og gerir ekki ráð fyrir því að koma til Akureyrar enn á ný næsta sumar. „Þá verð ég í háskólanáminu og fæ þá vonandi einhvers staðar vinnu til að þjálfa mig í því sem ég fer að læra. En hér er mjög gott að vera. Ég vinn í afgreiðslunni eins og í fyrra - þar er enn kaldara en úti! - og veit því alveg til hvers er ætlast af mér. Þótt ég skilji ekki tungumálið er það ekkert vandamál því fólk er svo vingjarnlegt. Samstarfsmenn mínir eru allir mjög hjálplegir og góðir og ég er þess vegna mjög ánægð að ég skyldi koma aftur."