Fréttir

Lofaði að segja ekki frá hvernig er hinum megin!

Sigurður Samúelsson.
Sigurður Samúelsson.

Sigurður Samúelsson segist tvisvar hafa farið „yfir“ í haust þegar hann lenti í hjartastoppi í vinnslusal Norðlenska á Húsavík. „Ég hef verið spurður að því hvernig hafi verið hinum megin en svarað því þannig, að ég tók loforð um að segja ekki neitt um það. Ég læt þar við sitja,“ segir Sigurður.

Hann er óendanlega þakklátur þeim sem björguðu honum, Grétari Guðmundssyni og Steingrími Stefánssyni, og öðrum sem að málinu komu. Einnig þakkar hann Norðlenska mjög fyrir hve vel fyrirtækið hefur stutt við bakið á honum og fjölskyldunni í kjölfar veikindanna. Sigurður er kominn í fulla vinnu aftur og segist hress.

„Eftir á að hyggja fór ég að finna fyrir sjóntruflunum fyrir um það bil tveimur árum, og takttruflun á hjartslætti. Það ágerðist en ég hafði engar áhyggjur af því fyrr en undir það síðasta,“ segir Sigurður.

Á sunnudegi í byrjun október í fyrra fann Sigurður fyrir sjóntruflunum og að hjartslátturinn varð hraðari, og aftur morguninn eftir. „Þá talaði ég við lækni og fór í skoðun, en fór svo aftur í vinnu. Á miðvikudegi var ég með brjóstverk og talaði við lækninn símleiðis en ekkert meira varð úr en það samtal. Það var svo rétt fyrir klukkan 10 á föstudagsmorgninum, þegar ég stóð við vinnslulínuna og beið eftir skrokki sem ég þurfti að saga skanka af, að ég fann mikinn verk í tvær til þrjár sekúndur.“

Lán í óláni

Hann fór þá í hjartastopp, missti meðvitund og datt á gólfið en man ekki meir fyrr en hann kom aftur til meðvitundar, heyrði raddir og sá fólk á spani í kringum sig.

Grétar og Steingrímur unnu mikið afrek og björguðu lífi Sigurðar, eins og sagt var frá hér á síðunni í fyrri viku, þegar þeir hlutu viðurkenningu fyrir það frá Rauða krossinum á 112 deginum. Fréttina má lesa HÉR.

„Þetta gat ekki gerst á betri stað því Grétar var bara nokkra metra frá mér. Hann er í hjálparsveitinni og kann því til verka. Steingrímur, sem líka er í björgunarsveit, var niðri í banaklefa en kom upp í sal akkúrat þegar þetta gerðist og heyrði að eitthvað var að. Þeir byrjuðu fyrstu lífgunartilraunir og svo var hringt í lögreglu og sjúkrabíl og sjúkraliðar voru komnir eftir um það bil fimm mínútur.“

Tók órúlega stuttan tíma

Leiðin lá fyrst á sjúkrahúsið á Húsavík og þaðan í sjúkraflug suður á Landspítala. „Þetta gerðist allt mjög hratt og ég var kominn í hjartaþræðingu innan við tveimur tímum seinna. Starfsfólkið á hjartagáttinni fyrir sunnan skildi ekki að þetta væri hægt á svona stuttum tíma!“

Sigurður fór beint ég í hjartaþræðingu við komuna til Reykjavíkur þar sem kom í ljós að vinstri slagæð við hjarta var nánast lokuð. Aðgerðin gekk að óskum og leið Sigurði mjög vel á eftir að eigin sögn.

Sigurður var fimm vikur fyrir sunnan. Hann byrjaði strax í endurhæfingu sem gekk vel en vegna gáttaflökts var ákveðið að setja í hann bæði bjarg- og gangráð. Sú aðgerð var 6. nóvember og að því loknu mátti hann ekkert gera í fjórar vikur.   „Ég beið eftir því að mega byrja vinna og gat mætt aftur til starfa í byrjun desember, var þá hálfan daginn en fór að vinna allan daginn aftur eftir að ég kom vel út úr þrekprófi í byrjun janúar.“

Hann segist vera hraustur í dag miðað við allt og allt.

Fullur þakklætis

Sigurður var viðstaddur athöfnina þegar Rauði krossinn heiðraði Grétar og Steingrím í síðustu viku og var mjög ánægður með það. „Ég var svo heppinn að Rauða krossinn bauð mér að vera viðstaddur. Ég var búinn að hitta annan þeirra og þakka honum fyrir en hinn hitti ég í fyrsta skipti frá því  ég veiktist,  þegar þeir voru heiðraðir. Ég held ég hafi þakkað þeim fyrir í hvert skipti sem ég yrti á þá! Ég gat ekki annað. Ég er líka innilega þakklátur forráðamönnum Norðlenska fyrir allan stuðninginn. Þeir voru mjög rausnarlegir og það kom aldrei neitt annað til greina í þeirra huga en að ég tæki mér bara þann tíma sem ég þyrfti til að jafna mig.“

Sigurður vill nota tækifærið og koma jafnframt á framfæri þakklæti sínu til vinnufélaga og allra þeirra sem aðstoðuðu og hugsuðu til hans á þessum tíma. Það hafi verið ómetanlegt og haft mikið að segja hversu vel allt fór á endanum.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook