Lágmarksverð og breytt verðhlutföll fyrir sauðfé haustið 2018
Útgefin verðskrá Norðlenska fyrir sauðfjárinnlegg haustið 2018 er lágmarksverð en verði afkoma með þeim hætti að unnt sé að greiða uppbætur á þessa verðskrá verður það gert, líkt og gert hefur verið á innlegg frá árinu 2017.
Vakin er athygli á breyttum verðhlutföllum milli matsflokka í verðskránni. Um alllangt skeið hafa hlutföll milli matsflokka breyst lítið en með þeim hlutföllum sem sjá má í verðskránni nú verður breyting á. Fituflokkar 3 og 3+ eru hækkaðir hlutfallslega þar sem sala og verðmætasköpun hefur þróast á þann hátt að þeir fituflokkar gefa bestu afkomu en verð fyrir fituflokka 1, 4 og 5 gefur aftur á móti hlutfallslega eftir. Að sama skapi er hlutfallsleg hækkun á matsflokkum E, U og R en lækkun á O og P.
Með þessu er verið að færa verðskrána nær því að endurspegla þau verðmæti sem Norðlenska getur gert úr hverjum matsflokk við frekari úrvinnslu.