Fréttir

Haldið upp á merk tímamót

Tíu ár voru á mánudaginn frá því vinnslulína frá Marel var tekin í notkun í sláturhúsi Norðlenska á Akureyri. Skömmu áður hafði samskonar lína verið sett upp í sláturhúsinu á Húsavík, og í tilefni þessara tímamóta sendi Marel starfsfólki Norðlenska á báðum stöðum nokkrar glæsilegar tertur sem gerð voru góð skil á mánudaginn.

„Þetta var algjör bylting á sínum tíma, bæði hvað varðar afköst og nýtingu,” segir Reynir B. Eiríksson, framleiðslustjóri Norðlenska. „Helsta skýringin á því er sú að fólkið sem úrbeinar þarf ekki að halda á neinu eins og áður - kjötið kemur til starfsmanna á færibandi og fer þannig frá þeim.”

Reynir segir að margir hafa efast um breytingarnar á sínum tíma. „Talið var að hugmyndin væri beinlínis vitlaus, ekki síst fyrir svona lítið fyrirtæki, þetta þyrfti að vera miklu stærra til að borga sig. Við vorum hins vegar alveg sannfærðir um að svo væri ekki og það reyndist rétt.”

Marel hafði á þessum tíma sett upp fáeinar vinnslulínur fyrir nautgripakjöt en sláturhúsið á Húsavík var það fyrsta þar sem slík lína var sett upp fyrir vinnslu lambakjöts. Í raun var um þróunarvinnu að ræða í upphafi og segir Reynir að samstarfið við Marel hafi verið frábært alla tíð. „Marel var á þessum tíma mjög tengt sjávarútvegi og er enn í hugum margra, en sannleikurinn er sá að 1/3 af veltu fyrirtækisins er vegna sjávarútvegs, 1/3 vegna kjúklinga og 1/3 vegna rauðs kjöts, lamba-, nauta- og svínakjöts.”

Fyrir breytingarnar þurftu úrbeinarar sjálfir að sækja kjötskrokkana og halda á að borði sínu áður en úrbeining hófst. „Breytingin fleytti okkur áfram um tugi ára,” segir Reynir nú.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook