Bréf frá framkvæmdastjóra
Miklar umræður hafa spunnist um verðskrá sauðfjárinnleggs afurðastöðva þetta haustið og ástæður þess að verð til bænda fyrir sauðfé fellur jafn mikið milli ára og raun ber vitni. Mig langar til að skýra málið út frá sjónarhóli Norðlenska.
Undanfarin ár hefur meðal söluverð sauðfjárafurða ekki verið í takt við innkaupsverð. Afkoma af útflutningi hefur verið afleit, bæði af útflutningi kjöts og aukaafurða, og hefur þar hjálpast að sterk íslensk króna og erfiðar aðstæður á flestum erlendum mörkuðum sem selt hefur verið inná. Ítrekað hafa aðstæður þróast til verri vegar milli sláturtíða þannig að afurðastöðvar, sem staðgreiða innlegg frá bændum að hausti, hafa ekki náð þeim verðmætum útúr vörunni sem væntingar stóðu til þegar afurðaverð var ákveðið. Þetta hefur valdið tapi hjá afurðastöðvunum og hefur Norðlenska tapað yfir 400 milljónum króna á slátrun og úrvinnslu sauðfjárafurða á árunum 2014-2016 og er þá ótalið hið augljósa að engin arðsemi var á eiginfé fyrirtækisins á sama tíma.
Hlutfall útflutnings hefur verið að hækka undanfarin ár þar sem innanlandssala er nokkuð stöðug en framleiðsla hefur verið að aukast. Við þær aðstæður hefur afkoma útflutnings vaxandi áhrif á meðalverð og líkur á sveiflum í afkomu aukast.
Birgðir
Talsvert hefur einnig verið rætt um birgðastöðu afurðastöðva. Átak í útflutningi, sem gerði afurðastöðvum kleift að minnka tap af útflutningi á kjöti frá síðustu sláturtíð, hjálpaði til við útflutning á um 850 tonnum af kjöti, þar af umtalsvert magn í nýliðnum ágústmánuði. Hefði ekki komið til þessa verkefnis er líklegt að birgðir hefðu verið mun meiri nú við upphaf sláturtíðar en raunin var. Ekkert í núverandi tillögum stjórnvalda bendir til þess að framhald verði á þessu verkefni.
Verðskrá
Við ákvörðun verðskrár Norðlenska fyrir sauðfé var m.a. horft til þess að fátt bendir til að ytri aðstæður verði betri á komandi 12 mánuðum heldur en þær hafa verið síðustu 12 mánuði hvað varðar afkomu af sölu sauðfjárafurða.
Milli áranna 2009 og 2016 hefur meðal kostnaðarverð þeirra sauðfjárafurða sem Norðlenska selur hækkað um rúm 29% en á sama tíma hefur meðal útsöluverð þessara vara hækkað um 21%. Ef útflutningur er undanskilinn hefur kostnaðarverð hækkað um 25% en meðal útsöluverð um 23%. Á sama tíma hefur undirvísitala vísitölu neysluverðs (m.v. júlí ár hvert) hækkað um tæp 26% fyrir kjöt almennt en 19% fyrir lambakjöt. Þrátt fyrir að Norðlenska hafi náð þeim árangri, m.a. með umtalsverðri vöruþróun, að auka virði sauðfjárafurða umfram almenna þróun markaðarins þá dugar það ekki til þegar ytri aðstæður þróast með þeim hætti sem verið hefur í útflutningi sauðfjárafurða. Raunar er það svo að meðal útsöluverð útflutnings hefur aðeins hækkað um 3% frá 2009 (miklar sveiflur en meðalverð árið 2016 var 3% hærra en meðalverð 2009) á meðan að kostnaðarverð úfluttra vara hefur hækkað um 44%. Þær kostnaðarhækkanir eru að hluta til hærri kostnaður innanlands, s.s. hærra innkaupsverð frá bændum, launahækkanir, hækkandi eftirlitsgjöld og auknar álögur vegna förgunar úrgangs auk þess sem flutt hefur verið út meira unnin vara, með hærra kostnaðarverð, í þeirri viðleitni að auka virði útflutningsins
Þrátt fyrir að ráðist hafi verið í umtalsverðar hagræðingaraðgerðir hjá félaginu að undanförnu, sem m.a. hafa skilað sér í lægri kostnaði við stjórnun og sauðfjárslátrun, vantaði árið 2016 um 180mkr uppá afkomuna til að komast hallalaust frá slátrun, vinnslu og sölu sauðfjárafurða. Á þetta leggst svo að fyrirsjáanlegar eru kostnaðarhækkanir bæði árið 2017 og 2018 meðal annars vegna kjarasamningsbundinna launahækkana og hefur það bæði áhrif á launakostnað fyrirtækisins og aðkeypta þjónustu. Hjá Norðlenska stefnir til dæmis í að starfsmannakostnaður í sláturtíð hækki um rúmar 40mkr milli ára vegna launahækkana og aukins kostnaðar vegna húsnæðis fyrir sláturtíðarfólk.
Þegar þessi áhrif voru lögð saman var niðurstaðan sú að áður birt verðskrá væri það skref sem þyrfti að stíga til að draga verulega úr líkum á áframhaldandi taprekstri félagsins. Þeir sem að þeirri ákvörðun komu gera sér grein fyrir að verðlækkunin hefur veruleg neikvæð áhrif á afkomu sauðfjárbænda en eru einnig upplýst um þá skyldu sína að starfa fyrir hönd allra hluthafa og með hagsmuni félagsins að leiðarljósi.
Með vinsemd og virðingu,
Ágúst Torfi Hauksson
Framkv.stj.Norðlenska