Fréttir

Húsasmíði, taekwondo og Nýja-Sjáland

Ægir Jónas Jensson í vinnunni.
Ægir Jónas Jensson í vinnunni.

Ægir Jónas Jensson, sem fagnaði 17 ára afmælinu á dögunum, er sumarstarfsmaður hjá Norðlenska annað árið í röð. „Ég er í vinnslusalnum í almennum kjötiðnaði og líkar ágætlega. Þetta er fín vinna,″ segir Ægir Jónas. „Það eru nokkrir jafnaldrar mínir hérna og svo kynnist maður bara hinum sumarstarfsmönnum og öðrum starfsmönnum,″ segir hann.

Ægir hefur æft íþróttina taekwondo í nokkur ár og er að læra húsasmíði í VMA. „Ég er því bara hérna í sumar; ég vinn í hangikjöti, pylsum og ýmsu öðru. Sumt er í föstum skorðum; við erum reyndar í pylsum á hverjum degi en til dæmis í greifapepperóní á miðvikudögum. Núna er ég að höggva grísahnakka sem verða svo kryddaðir og eru þá tilbúnir á grilið.″

Þegar spurt er hvað honum líki best við starfið hjá Norðlenska, svarar Ægir strax: „Mötuneytið! Maturinn er fjölbreyttur og mjög góður.″ Stærsta breytingin frá því í fyrrasumar að mati Ægis er sem sagt hið nýja og glæsilega mötuneyti.

Ægir vinnur níu klukkustundir á dag og segir það vissulega taka á. En hins vegar sé ekki erfitt að læra handtökin. „Aðalmálið er að hlusta vel, þá lærir maður þetta.″ Ægir segist reyna að vinna eins mikið og hann getur í sumar því hann sé að safna peningum fyrir löngu ferðalagi. „Ég fer vonandi sem skiptinemi til Nýja-Sjálands í janúar og verð alveg fram í desember. Í janúar er mitt sumar á Nýja-Sjálandi, ég verð hjá fjölskyldu og fer í almennan skóla en þegar ég kem til baka get ég tekið stöðupróf í ensku. Ég fæ sem sagt eitthvað af náminu metið svo ég eyði ekki tímanum þarna niður frá til einskis.″

Ægir, sem fer utan á vegum AFS, segist enn ekki vita hvar hann verður í landinu en er mjög spenntur. „Ég hlakka mikið til. Þetta er spennandi land, langt í burtu og öðruvísi en það sem ég hef kynnst. Mig hefur einhverra hluta vegna alltaf langað til Nýja-Sjálands og hugsaði með mér að ef ég léti verða af því hvers vegna ekki að vera bara í heilt ár!″


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook